Heildareinkun 4,9 af 5 mögulegum
Hér kemur skýrsla Margrétar Einarsdóttur félagsfræðing um spurningakönnun meðal þeirra 12 þátttakenda sem luku námskeiði Tækifærisins í lok febrúar sl. Níu svöruðu könnuninni sem ákveðið var að gera rúmum 3 mánuðum frá lokum námskeiðs til að fá mynd af atvinnustöðu á þeim tímapunkti.
Í samantekt skýrslunnar segir:
“Heilt yfir þá voru svarendur ánægðir með námskeiðið. Þegar þeir voru beðnir að meta það í heild sinni voru þeir þannig einróma um að námskeiðið hafi verið gott eða mjög gott og gáfu því meðaleinkunnina 4,9 af 5 mögulegum. …. Svarendur voru ánægðir með starfsfólkið, telja það hafa verið mjög styðjandi og að sá stuðningur sem var veittur við að finna launað starf hafi komið að góðu gagni. Eða eins og einn viðmælandi orðaði það: „Það besta var einstaklingsbundinn aðstoð við atvinnuleit“. Almennt voru svarendur einnig sáttir við þá fræðslu og ráðgjöf sem veitt var til að takast á við aðrar persónulegar áskoranir.
Góður stuðningur við atvinnuleit birtist líka í hlutfalli þeirra sem voru í vinnu 15 vikum eftir að námskeiðinu lauk en þá voru tveir þriðju hlutar svarenda í vinnu. Niðurstöðunum verður þó að taka með þeim fyrirvara að 3 af 12 þátttakendum á námskeiðinu svöruðu ekki matskönnuninni. Hlutfall þátttakenda sem voru í vinnu að þessum tíma liðnum er því á bilinu 50 - 75% eftir því hve atvinnustaða þeirra sem ekki svöruðu er. Allir þátttakendur voru hins vegar utan vinnumarkaðar og atvinnuhorfur þeirra ekki góðar þegar námskeiðið hófst.”
Skýrsluna má lesa hér